Lög

Lög
Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra

1.gr.
Félagið heitir Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra. Félagið er landsfélag með lögheimili og varnarþing í Reykjavík.

2.gr.
Fullgildir félagar geta orðið foreldrar eða forráðamenn heyrnardaufra. Styrktarfélagar geta þeir orðið, sem greiða tilskilið styrktarfélagsgjald. Styrktarfélagar og ævifélagar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en eigi atkvæðisrétt.

3.gr.
Markmið félagsins er að styðja og styrkja heyrnardaufa.

4.gr.
Markmiðum sínum hyggst félagið ná m.a. á eftirfarandi hátt:
a) Með því að halda uppi fræðslustarfsemi meðal foreldra heyrnardaufra barna, auka sem mest kynni þeirra á milli og samstarf í þágu heyrnardaufra.
b) Með því að láta sig varða starfsemi menntastofnana þeirra er heyrnardaufir stunda nám við, styðja þær og styrkja eftir föngum.
c) Með því að standa vörð um réttindi heyrnardaufra til náms, vals á námsbrautum og lífsstarfi.
d) Stuðla að jafnrétti og betra aðgengi heyrnardaufra að upplýsingum og gera mögulega þátttöku þeirra í tómstunda- og menningarlífi.
e) Með því að greiða fyrir heyrnardaufu fólki á hvern þann hátt annan sem unnt er.
f) Með því að styrkja og greiða götu þeirra sem mennta sig í þágu heyrnardaufra.

5.gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn og 3 til vara. Formaður skal kosinn á aðalfundi til eins árs í senn, og sitja eigi lengur en fimm ár samfleytt. Gjaldkera og ritara skal kjósa til tveggja ára. Tvo meðstjórnendur skal kjósa til tveggja ára. Tvo endurskoðendur skal einnig kjósa til tveggja ára.

6.gr.
Aðalfund skal halda í október- eða nóvembermánuði ár hvert. Hann skal boða með tilkynningu og/eða auglýsingu á vef félagsins www65.greind.is/fsfh.is með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

7.gr.
Félagsfund skal halda þegar stjórnin ákveður eða þegar minnst 10 félagsmenn krefjast þess. Útdrátt úr fundargerðum félagsins skal senda þeim félagsmönnum sem þess óska.

8.gr.
Stjórnarfund skal halda þegar einhver í stjórninni óskar þess. Sjórnin getur falið félagsmönnum að vinna störf í þágu félagsins og einnig skipað nefndir í sama tilgangi.

9.gr.
Sjóðir félagsins skulu vera tveir; félagssjóður og framkvæmdasjóður. Fullgildir félagar greiða félagsgjald í félagssjóð , en styrktarfélagar og ævifélagar einungis í framkvæmdasjóð. Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi. Styrktarsjóðsgjald og ævifélagagjald skal einnig ákveða á aðalfundi og renna þau í framkvæmdasjóð, svo og aðrar tekjur félagsins. Félagssjóður stendur straum af daglegum útgjöldum félagsins, en fé úr framkvæmdasjóði skal varið til að koma stefnumálum félagsins í framkvæmd.

10.gr.
Reikningsár félagsins skal vera frá 1. sept. til 31. ágúst og skulu reikningar lagðir endurskoðaðir fyrir aðalfund.

11.gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til breytinga.

12.gr.
Verði félaginu slitið skal farið með tillögur í þá átt sem lagabreytingar. Til fundarins skal boðað bréflega. Fundur sá sem samþykkir að slíta félaginu ákveður einnig hvernig ráðstafa skuli eignum þess og um greiðslur skulda. Eignum félagsins má þó aðeins ráðstafa í samræmi við tilgang þess. 

Samþykkt á aðalfundi 22. nóvember 1998

Advertisements