Aðalfundur 2020 og skýrsla formanns
Aðalfundur FSFH
Fjarfundur
8. desember 2020
1 Margrét formaður setti fund
2 Kosning fundarstjóra og fundarritara
Stungið var upp á Björgu sem fundarstjóra og Hirti sem fundarritara, sem var samþykkt einróma.
3 Skýrsla stjórnar
Formaður flutti skýrslu sína, en að því loknu var skýrslan rædd á almennum nótum.
4 Reikningar félagsins
Jón Gunnar, gjaldkeri félagsins, kynnti ársreikning félagsins, sem var deilt á fundinum og að því loknu var opnað fyrir spurningar. Fjárhagsár félagsins er frá október til október. Engar sérstakar athugasemdir komu fram og voru reikningarnir samþykktir einróma.
5 Kosning formanns
Margrét Stefánsdóttir tilkynnti að hún gæfi kost á sér til endurkjörs. Margrét var kjörin einróma.
6 Kosning stjórnar og varastjórnar
Björg og Selma voru kjörnar í fyrra til tveggja ára og sitja áfram.
Kosning tveggja meðstjórnenda til tveggja ára
Í framboði voru Hjörtur og Jón Gunnar og hlutu þeir einróma kosningu.
Kosning þriggja í varastjórn
Í framboði voru Kristín Guðný Sigurðardóttir, Andrea Guðnadóttir og Sigurjón Ólason og voru þau kjörin einróma.
7 Kosning skoðunarmanna reikninga
Tillaga gerð um Ægi Hallbjörnsson og Guðmund Maríusson, sem var samþykkt einróma.
8 Önnur mál
a Starfshópur um táknmálsumhverfi barna í skóla og frístundastarfi.
Reykjavíkurborg hefur sett á fót starfshóp um táknmálsumhverfi barna í skóla og frístundastarfi. Foreldrafélagið á ekki fulltrúa í hópnum, en formaður félagsins var kallaður á fund hópsins í október s.l. Markmið og hlutverk starfshópsins hafa ekki verið kynnt fyrir foreldrafélaginu en mun leggja sitt af mörkum verði eftir því leitað.
b Erindi frá Hönnu Láru Ólafsdóttur.
Skýrsla formanns FSFH árið 2020:
Einn stjórnarfundur var haldinn árið 2020, auk aðalfundar, eitt foreldrakvöld, auk þess sem stjórnarmeðlimir voru í reglulegu sambandi gegnum tölvupóst. Að auki hafa fulltrúar stjórnar sótt fundi ÖBÍ, aðalfund Umhyggju og fund með starfshópi um táknmálsumhverfi barna í Reykjavík.
Félagið hélt foreldrakvöld 22. janúar 2020 á Geira smart. Var kvöldið vettvangur fyrir foreldra að hittast, kynnast og kynnast félaginu. Kvöldið var ágætlega sótt af foreldrum, ný andlit mættu á svæðið sem gaman var að sjá. Fulltrúar SHH mættu á svæðið, Margrét Gígja táknmálskennari fjallaði um hvernig það er að vera heyrnarskert barn. Lilja Þórhallsdóttir sagði frá ráðstefnu sem foreldrar geta sótt.
Á degi íslenska táknmálsins, 11. febrúar undirritaði fulltrúi FSFH sáttmála um rétt allra til táknmáls. Sáttmálinn var undirritaður á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Alheimssamtökin gerðu sáttmálann í tilefni af alheimsþingi heyrnarlausra sumarið 2019 og er Ísland fyrst ríkja heims til að undirrita hann. Sáttmálinn undirstrikar meðal annars ábyrgð og skyldur stjórnvalda og hagsmunaaðila til að tryggja réttlátt samfélag og jafnt aðgengi að menntun fyrir alla. Auk fulltrúa FSFH undirrituðu: Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir verndari íslenska táknmálsins, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Heiðdís Dögg Eiríksdóttir formaður Félags heyrnarlausra, Bryndís Guðmundsdóttir formaður málnefndar um íslenskt táknmál og fulltrúar málnefndarinnar, Kristín Lena Þorvaldsdóttir forstöðumaður SHH og fulltrúar frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, skólastjóri Hlíðaskóla og fulltrúar frá Sólborg og Menntamálastofnun.
Félagið greiddi fyrir veitingar sem boðnar voru á hinu árlega Döff mótinu sem fór að þessu sinni fram að Kleppjárnsreykjum 3-5. júlí.
Félagið veitti einn ferðastyrk.
Nú í desember sótti fulltrúi FSFH fund starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar sem hefur það hlutverk að skoða táknmálsumhverfi barna í Sólborg, táknmálssviði Hlíðaskóla, Eldflauginni og Gleðibankanum. Hlutverk hópsins er að vinna að tillögum er varðar bætt starfsumhverfi, endurmenntun sem og samstarf stofnana sem hafa táknmálstalandi börn og koma með tillögur að leiðum til að fjölga táknmálstalandi kennurum/starfsfólki.
Óneitanlega litaði yfirstandandi kórónuveirufaraldur starfsemi félagsins árið 2020. En starfsárið var engu að síður fjölbreytt og skemmtilegt.