26.09.2010 - Táknmálssýningar á RIFF fyrir börn 2. og 3. okt. 2010

Sérstakar táknmálssýningar verða á tveimur bíómyndum fyrir börn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF. Myndirnar eru:

Uppi á háalofti : Hver á afmæli í dag? er töfrandi og sérstök tékknesk hreyfimynd eftir Jiri Barta sem unnið hefur til margra verðlauna á barnamyndahátíðum um heim allan. Á háaloftinu þrífst heilt samfélag leikfanga og úreltra hluta sem lýtur sínum eigin lögmálum og aldrei er dauð stund. En alltaf skal eitthvað trufla friðinn og við göngum inn í fagran, skuggalegan og ávallt ímyndunarríkan heim hreyfimyndarinnar til að heillast og undrast. Táknmálssýning: Laugardagur 2. október kl: 14.00 í Norræna húsinu.


Lögreglubíllinn Ploddy er spólandi hress og rafmagnaður meðlimur lögreglunnar í Bodö í Noregi sem berst ásamt vinkonu sinni Odu otri gegn náttúruníðingum sem vilja stela drykkjarvatni bæjarbúa. Skemmtileg og spennandi teiknimynd sem minnir okkur mikið á íslenskt smábæjarumhverfi og málefni dagsins í frábærri tækniteiknun þessara næstu nágranna okkar. Táknmálssýning: Sunnudagur 3. október kl: 14.00 í Bíó Paradís.

Að auki viljum við minnast á Hreyfimyndakjallarann okkar í Norræna húsinu:


Hreyfimyndakjallarinn – ókeypis fyrir alla

Í kjallara Norræna hússins í ár mun seinni hluta hátíðarinnar vera opinn hreyfimyndakjallari þar sem sýndar verða hreyfimyndir eftir bæði börn og fullorðna og fólki gefst kostur á að sjá hvernig stop motion er gerð og jafnvel fengið að prófa sjálft. Við viljum bjóða börn og foreldra þeirra velkomin í hreyfimyndagerðina okkar sem verður opin 14.00 – 18.00 frá 27. september til 3. október.

Uppi í sal í Norræna húsinu mun að auki ganga ókeypis hreyfimyndadagskrá:

þri 28: 14.00 – 16.00 mið 29: 14.00 – 16.00 fim 30: 14.00 – 16.00

fös 01: 14.00 – 18.00 lau 02: 14.00 – 18.00 sun 03: 14.00 –18.00


Nánari upplýsingar: www.riff.is

Til baka