16.09.2016 - 50 ÁRA AFMĆLI FÉLAGSINS

Í dag 16. september eru 50 ár frá stofnun Foreldrafélagsins. 

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra (FSFH) hefur unnið að hagsmunamálum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og ungmenna frá stofnun þess árið 1966. Verkefni félagsins hafa verið að efla þátttöku þeirra í þjóðfélaginu, í lýðræðissamfélaginu og félags- og atvinnulífinu, og styðja við aðstandendur þeirra í öllu því sem getur orðið til hagsbóta. Félagið leggur höfuðáherslu á allt sem snertir menntun og skólagöngu heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og ungmenna.

Félagið er foreldra- og styrktarfélag og með greiðslu félagsgjalda fær fólk félagsaðild. FSFH styrkir verkefni og viðburði fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa, það styður einnig skólaþróunarverkefni og verkefni sem stuðla að aukinni menntun fagfólks. Þá styður félagið með virkum hætti réttindabaráttu heyrnarlausra og heyrnarskertra fyrir dómstólum.

FSFH hefur lengi barist fyrir textun í sjónvarpi og undanfarin ár hefur félagið barist fyrir því að heyrnarlaus grunnskólabörn fái námsefni á táknmáli. 

Eitt stærsta verkefni félagsins til margra ára er nú í bígerð en það varðar snemmtæka íhlutun hjá börnum sem greinaast með heyrnarskerðingu.  Verkefnið verður kynnt betur í vetur og er ætlunin að halda afmælisráðstefnu í nóvember þar sem innleiðsla á SKY verður kynnt.

Ekki er enn komin dagsetning á viðburðinn en hann mun verða vel kynntur þegar nær dregur.

Stjórn félagsins vill óska félagsmönnum og öllum velunnurum félagsins innilega til hamingju með daginn og 50 árin. 

 

Til baka